Tónlist

Tónlist

Börn hafa meðfædda eiginleika til þess að tjá sig með hljóðum og hreyfingu. Löngu áður en þau byrja að nota orð hafa þau notað hljóð, tóna, látbragð og hreyfingar til að tjá sig og hafa þannig samskipti við umheiminn. Næmi barna fyrir tónlist er mikið þegar þau eru ung og því er mikilvægt að örva tónlistarþroska snemma. Tónlistarnám eflir jafnframt hljóðkerfisvitund, tjáningarhæfni, sköpunargáfu, félags-, fagur- og tilfinninga- þroska ásamt því að þroska tóneyra, rytma, hreyfi- og vitsmunaþroska.

Einn af þremur áhersluþáttum Leikskóla Seltjarnarness er tónlist.

 

Haustið 1997 hófst samstarf Leikskólans og Tónlistarskólans á Seltjarnarnesi. Þetta samstarf hefur haldist æ síðan. Ólöf María Ingólfsdóttir tónmenntakennari hefur séð um tónlisarkennsluna af hálfu Tónlistarskólans frá árinu 2000. Öll leikskólabörn á Seltjarnarnesi hafa frá þeim tíma sótt sérstaka tónlistartíma einu sinni í viku, hálftíma í senn yfir vetrarmánuðina.  Tónlistarstarf í leikskólanum jókst til muna eftir að Sesselja Kristjánsdóttir söngkona og tónmenntakennari hóf störf í Leikskólanum árið 2009. Nú fá þrír elstu árgangar leikskólans sérstaka  tónlistartíma þrisvar í viku. Í þessum tímum er annars vegar lögð áhersla á tónlist í gegnum hreyfingu,leik og tjáningu og hins vegar söng. Blásið er  til samsöngs einu sinni í viku bæði á Mánabrekku og Sólbrekku. Þar að auki sameinast allar deildir í söng fyrsta þriðjudag hvers mánaðar. Nokkrum sinnum á skólaárinu koma grunnskólabörn í heimsókn í leikskólann með hljóðfærin sín og halda stutta tónleika. Leikskólabörnunum er boðið á árlega Aðventutónleika í tónlistarskólanum.

 

Í tónlistartímunum fá börnin að kynnast ýmsum hljóðfærum, gera tilraunir með þau, hlusta á fjölbreytta tónlist og hreyfa sig eftir hrynjanda hennar. Í þessum tímum er markvisst unnið með leik og tjáningu. Áhesla er lögð á fjölbreytni í laga og textavali. Oft eru textarnir mikil áskorun og gefa gott tækifæri  til vinnu með orðaforða, málskilning og skýran framburð. Börnin læra lög og texta en fá auk þess tækifæri til þess að semja eigin tónlist  og texta, Stóra markmiðið er að efla sönggleði og ánægju af tónlist þar sem allir fá að njóta sín.