Starfsemi

Starfsemi

Dagskipulagið í Skála

Á degi hverjum koma börnin saman í samverustundir.  Þær eru hluti af íslenskri leikskólamenningu og mikilvægur hlekkur í starfinu.  Börnin læra að sitja saman með kennurum sínum hlusta á sögur og ævintýri, þau læra þulur og syngja saman.

Í hverri viku er umsjónarmaður vikunnar valin.  Þetta er gert í samverustund sem er fyrst á morgnana.  Umsjónarmaðurinn fær einnig að vera „veðurfræðingur“, sem gáir til veðurs og ákveður í samstarfi við kennara hvernig beri að klæða sig fyrir útiveruna.   Sett eru tákn inn á þar til gert kort sem segir okkur til um hvernig veðrið er hverju sinni; sólskin, rigning, skýjað, heitt, kalt o.s.f.v.  
Táknin sem eru notuð eru samskonar og veðurfræðingar nota í sjónvarpi.  Einnig er farið yfir hvaða dagur er og mánuður.

Frjáls leikur í sinni fjölbreyttu mynd er kjarninn í uppeldisstarfi leikskólans. Hann er tjáningarform barnanna og endurspeglar reynslu þeirra.  Í sjálfsprottnum leik er barnið m.a. stjórnandinn og lærir að taka ákvarðanir og leysa úr vandamálum.  Leikurinn er  kennslutæki leikskólakennarans, sem skapar ramma utan um leikinn. Þannig er börnunum búin tækifæri til að efla og örva alla þroskaþætti.

Markvisst verður unnið með SMT-skólafærni í vetur þar sem áhersla er lögð á að kenna börnunum æskilega hegðun með styrkjandi leiðum

Börnin njóta reglulegrar útivistar sem veitir þeim tækifæri til meira frelsis en innandyra.  Upplifunarferðir eru farnar einu sinni í viku.  Að upplifa og njóta með börnunum er auðvelt á Seltjarnarnesi þar sem stutt er í óspillta náttúru, Gróttu, fjöruna, Bakkatjörn og Valhúsahæð svo og ótal aðra staði sem eru vel nýttir til náttúruupplifunar.  Með vorinu förum við í fjöruferðir einu sinni í viku þar sem börnin fá að skoða og kanna fjöruna á eigin forsendum. Kennararnir eru „aðstoðarmenn“ í fjöruferðum og hjálpa börnunum eftir þörfum í leik og tilraunum.

Í listaskála er mikið hægt að kanna og njóta.  Börn eru hæfileikarík með mikla sköpunarþörf, sem mikilvægt er að styðja við og styrkja.  Lögð er rík áhersla á frjálsa tjáningu barnanna í sköpun sinni því skapandi starf eflir stjálfstraust barnsins.

Við leitumst til að gefa börnunum nægan og samfelldan tíma og aðstöðu til myndsköpunar.

Í Gróttusal og í sal leikskólans eru skipulagðir og frjálsir leikir  í bland. Í gegnum hreyfingu lærir barnið ýmis stöðuhugtök og öðlast skilning og getu sem leiðir af sér aukið úthald og sterkari sjálfsmynd.

 Tónlistarstarf er ríkur þáttur í daglegu starfi leikskólans. Á morgnana er lögð áhersla á að spila rólega tónlist og skapa notalegt andrúmsloft þannig að börn og foreldrar finna til öryggis og hlýju.  Ólöf María, tónlistakennari, kemur einu sinni í viku og leggur áherslu á fjölbreytni í laga- og textavali, vinnu með hljóðfæri og hlustun.  

Hópastarf er tvisvar í viku þá er einungis helmingur barnanna inni á deild og unnið markvisst að móðurmáli sem er þýðingarmikill þáttur á öllum sviðum uppeldisstarfsins.  Málrækt og málörvun fléttast inn í allt leikskólastarfið alla daga, allan ársins hring.  Mörg og margvíslegtækifæri gefast í leikskólum til að örva mál barnanna.  Samræður, sem byggja á opnum spurningum, hvetja til gagnrýninnar og skapandi hugsunar.  Í hópastarfi gefst gott næði og tækifæri til þessarar örvunar.

Að lokum eru „Fagnaðarfundir“ haldnir á föstudögum í salnum.  Deildarnar skiptast á að stjórna, börnin á viðkomandi deild fá æfingu í að koma fram með því að standa á sviðinu og syngja nokkur lög fyrir aðra nemendur og kennara.  Foreldrum og aðstandendum er boðið sérstaklega á átta vikna fresti.