Starfsemi
Daglegt starf á Grund:
Daglegt starf á Grund fylgir ákveðnu skipulagi sem þó er sveigjanlegt. Í starfi okkar er áhersla lögð á að efla sjálfstæði barnanna og sjálfshjálp í öllum daglegum athöfnum. Á matmálstímum skammta börnin sér sjálf mat á disk eftir getu, smyrja og læra að nota hnífapör þ.e. hníf og gaffal og þau hella vatni í glasið sitt. Í fataherbergi öðlast þau færni í að klæða sig í og úr og ganga frá fatnaði í hólfið sitt. Þau fara sjálf á salerni og þvo hendur eftir klósettferðir sem og eftir útivist. Við leggjum áherslu á að börnin fái krefjandi verkefni þar sem þau læra að vinna í hóp og taka tillit til annara.
Snillingur dagsins:
Snillingur dagsins lítur til veðurs, fer yfir hvaða viku- og mánaðardagur er og velur útiklæðnað fyrir daginn. Hann sækir matinn og skipar á borð. Snillingurinn fer einnig með ruslið sem við erum að flokka inni á deild sem og gengur um skólalóðina og athugar hvort það sé óæskilegt rusl þar þá viku sem við erum með útisvæðið.
Samverustundir:
Á hverjum degi koma börnin þrisvar sinnum saman í samverustundir. Samverustundir efla félags- og málþroska barnanna, gefa gott tækifæri til að styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust þeirra. Í þessum stundum leggjum við áherslu á að hver og einn einstaklingur fái að njóta sín með því að fá að tjá sig um líðan sína, hugsanir og tilfinningar og að aðrir sýni þá tillitssemi að vera virkir hlustendur. Samverustundirnar eru einnig notaðar fyrir markvissa málörvunarleiki.
Kl 9 er fyrsta samverustundin þá og farið er yfir daginn og snillingurinn segir frá hvernig börnin klæði sig fyrir útiveru Kl 11:30 er samverustund þar sem lesið er fyrir börnin
Kl 14:30 er samverustund og val.
Málörvun:
Unnið með námsefnin Markviss málörvun og . Lögð er áhersla á samtöl, að hlusta á börnin, fara í orðaleiki og gefa þeim tækifæri til að tjá sig en einnig að hvetja börnin til að spjalla saman. Í daglegu starfi gefast oft tækifæri til að spjalla við börnin. Öllum stundum er unnið að málörvun.
Læsi:
Til að þjálfa börn í að hlusta á samfelldan texta sem þyngist smátt og smátt er boðið upp á daglegar lestrarstundir. Einnig er bókhilla staðsett inni á deild svo að börnin geti hvenær sem er tekið sér bók í hönd. Bókavalið miðast við aldur og áhuga þeirra. Einnig er lögð áhersla á að kenna þeim að umgangast bækur með virðingu.
Spilahópar:
Eru einu sinni í viku eru spilahópar í samstarfi við sérkennsluna. Í spilahópunum fer fram mikil málörvun auk þess að þjálfa til að mynda þætti eins og bíða, hlusta, taka tillit og telja
Tónlist:
Einu sinni í viku er tónlistarstund hjá Ólöfu Maríu og tvisvar í viku er tónlist hjá Sesselju, börnin fara í þrískiptum hópum í tónlistarstundina. Elstu börnin fara einnig með börnunum á Ási og yngri börnin fara í sér hóp. Við leggjum áherslu á fjölbreytni í laga- og textavali, vinnu með hljóðfæri, hreyfingu og hlustun.
Textarnir eru oft mikil áskorun og gefa þeir gott tækifæri til að vinna með orðaforða, málskilning og efla skýran framburð. Þar sem börnin eru flest ekki læs vinnur Sesselja með langa og erfiða texta þannig að hún “teiknar” orðin eða setningar og með aðstoða barnanna er ákveðið hvað skuli teikna til að tákna ákveðin orð s.s. dáinn t.d. með kross, vetur með snjókarli o.sv.frv.) Börnin “lesa” svo textann út úr myndunum (frá vinstri til hægri líkt og síðar með bókstafi og orð). Reynslan hefur sýnt að þau eru eldsnögg að tileinka sér mjög flókna texta með þessum hætti þar sem sjónminnið hjálpar.
Markmiðið er að efla sönggleði –“allir geta sungið”- og í leiðinni öðlast börnin tilfinningu fyrir takti, hrynjanda, stemmingu og hugtökum tónlistar.
Fagnaðarfundur eða söngstund er í Sólbrekkuhúsi á föstudögum kl 9:15. Á fagnaðarfundum skiptast deildirnar á að vera uppi á sviði og syngja fyrir hin börnin og stjórna svo samsöng í lokinn.
Fyrsta þriðjudag í mánuði er sameiginleg söngstund allra barnanna í leikskólanum í Mánabrekku.
Listaskáli:
Yfir veturinn er unnið reglulega með myndsköpun, og tilraunir gerðar með ýmis efni og áhöld. Auk þess að vinna að ýmsum verkefnum inni á deild fara börnin öll einu sinni í viku í Listaskála þar sem Kristín Vilborg mun bjóða þeim að taka þátt í skapandi starfi. Unnið er með fjölbreyttan og opin efnivið, þar er gott tækifæri til að nota hæfileika sína enn frekar til sköpunar, sem mikilvægt er að styðja við og styrkja. Einnig er lögð áhersla á að börnin fái skapandi verkefni inn á deild þar sem þau geti notið þess að að lita, mála, klippa og líma.
Lífsleikni SMT:
Markvisst er unnið með SMT-skólafærni þar sem áhersla er lögð á að kenna börnunum æskilega hegðun með styrkjandi leiðum. “Reglurnar” sem þau læra eru sýndar á myndrænan hátt á spjöldum með texta undir. Í tengslum við innlögn á reglunum eru umræður.
Börnin vinna sér inn bros og þegar þau eru búin að klára öll brosin þá er brosveisla, þau eru búin að velja fyrirfram hvaða „brosveislu“ þau vildu vinna fyrir. Strax þegar þau halda brosveislu þá byrja þau að vinna fyrir nýrri brosveislu. Þá er fundur þar sem þau koma með uppástungur að brosveislum og kjósa svo um hvaða veislu þau vilja, við kennum þeim lýðræði með þessum kosningum.
Vináttuverkefnið - Blær:
Fri for mobberi er vináttu verkefni Barnaheilla sem snýst um forvarnir gegn einelti. Það eru allir þátttakendur í verkefninu börn, starfsmenn og foreldrar. Börnin fá bangsann Blæ að gjöf og er verkefnið unnið í gegnum hann í öllu daglegu starfi deildarinnar. Heimasíða verkefnisins er http://www.barnaheill.is/Vinatta/
Blær kemur í heimsókn:
Í vetur fer stóri Blær einu sinni heim með hverju barni, markmiðið er að barnið ræði við foreldrana um vináttu. Skráning um heimsóknina sem fer í persónumöppu barnsins.
Hringekja:
Hringekjan á mánudögum og miðvikudögum kl 9:15. Þar er boðið upp á 9 mismunandi vinnustöðvar. Unnið er með hreyfingu, útinám, listsköpun, jóga, sögugerð, vísindi, umhverfismennt, vísindi og tónlist. Öll börn i Sólbrekku taka þátt og fá tækifæri til þess að vinna á öllum vinnustöðvum og um leið að kynnast börnum og starfsfólki af öllum deildum.
Þriðjudagshópar:
Börnunum er skipt í 3 hópa, það eru Lubbahópur, vettfangsferðahópur og spilahópur.
Hreyfiland:
Börnin fara í 2 hópum í Hreyfiland á föstudögum kl. 10 og 11 þar er Krisztína með skemmtilega leiki og grófhreyfingu, þar er lögð áhersla á jafnvægi, styrk og þol.
Frjáls leikur og val:
Ekki má gleyma mikilvægi hins frjálsa sjálfsprottna leiks þar sem börnin líkja eftir fyrirmyndum sínum, setja sig í spor þeirra og samsama sig þeim. Í frjálsum leik æfa börnin samskipti og félagslega hæfni og þess vegna verður frjálsi leikurinn mikilvægur í starfi okkar í vetur.
Frjáls leikur og val verður á milli elstu barnanna á Ási, Bakka og Grund.
Útivera og hreyfing:
Við förum út a.m.k. einu sinni á dag. Í útiveru bjóðast einstakir möguleikar til frjálsra leikja sem eru afar mikilvægir fyrir vöxt og þroska. Einnig veitir útivistin börnunum frá öllum deildunum tækifæri til að leika saman og efla vináttuna.
Upplifunarferðir:
Farið er í vettvangsferðir og markmið með þeim er að börnin kynnist sínu nánasta umhverfi. Áður en lagt er af stað er rætt við börnin um hvert skuli halda, hvernig við förum ásamt því að skoða leiðina og áfangastað á korti.
Umhverfismennt:
Leikskóli Seltjarnarness er „Grænfánaskóli“ það er því rík áhersla lögð á umhverfismennt.
Persónumöppur:
Í persónumöppurnar er skráð margt af því sem börnin fást við í vetur. Hvert barn fær sína eigin möppu sem það getur náð í hvenær sem það vill til að skoða og sýna öðrum.
Elstu börnin:
Farið verður í þrjár heimsóknir í Mýrarhúsaskóla sem er liður í aðlögun fyrir það sem koma skal. Börnin heimsækja skólaskjólið, hitta skólastjóra og fá að sitja í kennslustund með börnum í 1. bekk.
Íþróttaskóli Gróttu
Á vorönn hefst íþróttaskóli sem er samstarfsverkefni leikskólans og Gróttu. Börnin fá kynningu og leiðsögn i þeim íþróttagreinum sem félagið býður uppá þ.e. handbolta, fótbolta og fimleika
Útskriftaferð
Í maí fara öll börnin á Ási, Bakka og Grund í “útskriftarferð”. Farið verður í dagsferð að Úlfljótsvatni með nesti og tilheyrandi en þar er frábær aðstaða til fræðslu og leikja.