Starfsemi

Daglegt starf


Daglegt starf á Bakka

Daglegt starf á Bakka fylgir ákveðnu skipulagi sem þó er sveigjanlegt. Í starfi okkar er áhersla lögð á að efla sjálfstæði barnanna og sjálfshjálp í öllum daglegum athöfnum. Á matmálstímum skammta börnin sér sjálf mat á disk eftir getu, smyrja og læra að nota hnífapör þ.e. hníf og gaffal. Í fataherbergi öðlast þau færni í að klæða sig í og úr og ganga frá fatnaði í hólf. Þau fara sjálf á salerni og þvo hendur á eftir sem og eftir útivist.

Hjálparhendur
Í viku hverri fá fjögur börn ákveðið hlutverk. Tryggt er að öll börn fái að sinna öllum hlutverkum yfir veturinn. Við köllum þau hjálparhendurnar.
Hlutverkin eru:

  • Bláa höndin er fréttamaður og sér um samverustund á morgnana með kennara þ.e. fer yfir daginn, veðrið o.fl. Fréttamaður má gjarnan koma með frétt að heiman hvort sem það er eitthvað persónulegt eða eitthvað áhugavert sem barnið hefur heyrt eða séð í fjölmiðlum.
  • Grænan höndin sér um ávaxtastundina á morgnana, sækir ávexti og býður hinum á deildinni. Einnig er hún hin svokallaða „græna lögga“ en þá sér barnið um að fylgjast með því að vel sé hugsað um umhverfið, aðstoðar við að allir muni eftir að flokka og ekki sé matarsóun í gangi. Á föstudögum er farið með afrakstur flokkunar á sína staði
  • Rauða höndin sér um að leggja á borð í hádeginu og fyrir síðdegishressingu. Sækir matinn með kennara, segir frá matseðli dagsins og að lokum býður hinum til borðs.
  • Gula höndin fer heim með Blæ á fimmtudegi og les fyrir hann ásamt foreldrum bók sem barnið les síðan í samverustund á mánudegi. Annað mikilvægt hlutverk er að vera „vinalöggan“ en hún fylgist með hvort allir séu vinalegir við hvern annan og minnir á þegar þess er þörf.

Læsi og samskipti
Á degi hverjum er unnið að málörvun. Samverustundirnar nýtast vel fyrir markvissa málörvun. Lögð er áhersla á samtöl, hlustun og orðaleiki. 2-3 sinnum á dag komum við saman, börn og kennarar, í einn stóran hring. Í samverustundum gefst tækifæri til að spjalla um ýmis efni sem kennarar og börn hafa áhuga á eða ræða vandamál sem koma upp. Samverustundir efla félags- og málþroska barnanna, gefa gott tækifæri til að styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust þeirra. Börnin læra að hlusta á aðra og tjá sig fyrir framan hópinn.

Spil eru frábær leið til að efla félagsfærni: bíða, skiptast á, taka tillit til annarra, vinna og tapa. Við kennarar á deildinni spilum oft með börnunum og hvetjum þau einnig til að spila saman. Á deildinni eru í boði spil sem auka orðaforða og auka skilning á stærðfræði.

Einu sinni í viku er skipulögð spilastund þar sem tekið er markvisst á þeim verkefnum sem talið er að börnin á Bakka þurfi að kljást við í málörvun. Sem dæmi er unnið með hljóðkerfisvitund, hugtök, andstæður, afstæðuhugtök, setningauppbyggingu o.s. frv. Verkefni þetta er samvinnuverkefni á milli starfsfólks deilda og sérkennslu.

Til að þjálfa börn í að hlusta á samfelldan texta sem þyngist smátt og smátt er boðið upp á daglegar lestrarstundir.  Einnig eru bækur aðgengilegar inni á  deild svo að börnin geti hvenær sem er tekið sér bók í hönd. Bókavalið miðast við aldur og áhuga þeirra. Einnig er lögð áhersla á að kenna þeim að umgangast bækur með virðingu.

Börnin á Bakka fá frjálsan aðgang að ritföngum og blöðum og hvetjum við þau að teikna og skrifa eftir eigin getu. Á þann hátt velja þau oft að sitja saman að teikna og skrifa og læra því hvert af öðru. Teikning og ritun stuðla að aukinni færni í fínhreyfingum.

Vináttuverkið Blær  
Leikskólinn vinnur með v
ináttuverkefni Barnaheilla sem er forvarnarverkefni gegn einelti fyrir leikskóla. Efnið heitir á frummálinu „Fri for mobberi“ og er þýtt, staðfært, framleitt og gefið út í samstarfi við Red barnet – Save the Children og Mary Fonden í Danmörku.
Blær bangsi: Blær er táknmynd vináttunnar í verkefninu. Blær minnir börnin á að gæta hvers annars vel og að vera góður félagi og hjálpar til við ýmis verkefni og faðmar, gleður og huggar börnin.
Eitt af verkefnum hjá Blæ bangsa, á Bakka er að fara heim með einu barni í senn eins og kom fram í texta um „Gulu höndina“ hér fyrir ofan.

Samfella milli skólastiga
Börnin fara í skipulagðar heimsóknir í Mýrarhúsaskóla þrisvar sinnum í vetur. Þar hittum við skólastjórann og annað starfsfólk skólans, skoðum skólaskjólið og kíkjum í skólastofur.  Í síðustu heimsókninni fá börnin að sitja í tíma með fyrsta bekk og fara með þeim í frímínútur.
Af og til verður komið við á leikvellinum í Mýró til að prófa leiktækin þar og jafnvel að hitta komandi skólafélaga.

Sköpun og menning

Tónlist
Einu sinni í viku er tónlistarstund hjá Ólöfu Maríu og þá hálf deild í einu. Í vetur skiptast börnin í þrjá hópa sem fara í tónlistarstund hjá Sesselju. Í þessum stundum er lögð áhersla á fjölbreytni í laga- og textavali, vinnu með hljóðfæri, hreyfingu og hlustun. Auk þess er söngstund hjá Sesselju einu sinni í viku og þá öll deildin í einu ásamt nokkrum börnum af Grund.
Textarnir eru oft mikil áskorun og gefa þeir gott tækifæri til að vinna með orðaforða, málskilning og efla skýran framburð. Þar sem börnin eru flest ekki læs, vinnur Sesselja með langa og erfiða texta þannig að hún „teiknar“ orðin eða setningarnar og með aðstoð barnanna er ákveðið hvað skuli teiknað svo það hjálpi sem best (dæmi: dáinn er kannski táknað með krossi, vetur með snjókalli o.s.frv.) Börnin „lesa“ svo textann út úr myndunum (frá vinstri til hægri líkt og síðar með bókstafi og orð). Reynslan hefur sýnt að þau eru eldsnögg að tileinka sér mjög flókna texta með þessum hætti, þar sem sjónminnið er að hjálpa.
Stóra markmiðið er þó að efla sönggleði –„allir geta sungið“- og í leiðinni öðlast börnin tilfinningu fyrir takti, hrynjanda og hugtökum tónlistar.

Listaskáli
Börnin fara einu sinni í viku í listaskála þar sem Kristín Vilborg kennir þeim. Yfir veturinn er unnið reglulega með myndsköpun og tilraunir gerðar með ýmis efni og áhöld.
Unnið er með fjölbreyttan og opinn efnivið, þar er gott tækifæri til að nota hæfileika sína enn frekar til sköpunar, sem mikilvægt er að styðja við og styrkja.
Auk þess munum við vinna að ýmsum verkefnum inni á deild.


Frjáls leikur og val
Ekki má gleyma mikilvægi hins frjálsa sjálfsprottna leiks þar sem börnin líkja eftir fyrirmyndum sínum, setja sig í spor þeirra og samsama sig þeim. Um leið geta þau nýtt leikinn til að takast á við það sem þau eru að upplifa í eigin lífi. Í frjálsum leik æfa börnin samskipti og félagslega hæfni og þess vegna verður frjálsi leikurinn mikilvægur í starfi okkar í vetur.

Heilbrigði og vellíðan

Útivera og hreyfing
Á Bakka förum við út a.m.k. einu sinni á dag. Í útiveru bjóðast einstakir möguleikar til frjálsra leikja sem eru afar mikilvægir fyrir vöxt og þroska. Einnig veitir útivistin börnum frá öllum deildum tækifæri til að leika saman og efla vináttuna.
Á vorönn hefst íþróttaskólinn sem er samstarfsverkefni leikskólans og Gróttu. Þar fá börnin kynningu og leiðsögn í þeim íþróttagreinum sem félagið býður upp á þ.e. handbolta, fótbolta og fimleikum.

Hreyfiland
Börnin fara einu sinni í viku til Krisztina í Hreyfilandi. Í þessum tímum er lögð áhersla á iljar, bak og hryggsúlu, bætt jafnvægisskyn, samhæfingu hreyfinga og þol.
Námskeiðið byggir á BDE (Basic Development Education eða Grunnþjálfun á íslensku) kennsluaðferð sem búin var til út frá rannsókn dr. Delacatos á hreyfingu og þroska barna.  Lesa má nánar um aðferðina á heimasíðu Hreyfilands http://hreyfiland.is/fyrir-born-3-6-ara

Sjálfbærni og vísindi

Upplifunarferðir og Lubbi
Í vetur munum við samþætta Lubba læsis verkefnið og upplifunarferðir. Markmið með vettvangsferðunum er að börnin kynnist sínu nánasta umhverfi, upplifi náttúruna og þau kennileiti sem Seltjarnarnes býður upp á. Hundurinn Lubbi mun bjóða upp á fjölbreyttar leiðir til að leika og læra um hljóðin sem stafirnir eiga.

Umhverfismennt
Leikskóli Seltjarnarness er „Grænfánaskóli“ það er því rík áhersla lögð á umhverfismennt. Gula höndin/“löggan“ styður við það starf á Bakka, ásamt því að öll börn fá eina samverustund á viku sem fjallar um það efni.

Persónumöppur
Í persónumöppurnar er skráð margt af því sem börnin fást við í vetur. Hvert barn á sína eigin möppu sem það getur náð í hvenær sem það vill til að skoða og sýna öðrum.

Atriði sem sem gott er að hafa í huga;

  • að yfirfara hólf barnanna reglulega og fylla á aukafataboxið

  • að leikskólinn er vinnustaður barnanna og þess vegna verða þau að vera klædd þannig að þau geti tekið þátt í öllu starfi deildarinnar úti og inni

  • að föt barnanna þoli skapandi vinnu alla daga vikunnar

  • að merkja allan fatnað. Þá aukast líkurnar á því að allt komist til skila

  • að láta vita um allar fjarvistir barnsins eins og veikindi eða frí

  • að láta vita ef ef aðrir en forráðamenn sækja barnið

  • að börnin séu mætt ekki seinna en 8:50 í morgunmat

  • skipulagt starf hefst kl. 9:00

  • Instagram bakki1718