Íslenski þroskalistinn

Íslenski þroskalistinn og Hljóm

Kynning á skimun

Í lögum um leikskóla nr. 78/1994 kemur fram að eitt af meginmarkmiðum leikskólans sé ”að kappkosta í samvinnu við heimilin að efla alhliða þroska barna í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins”. Ein þeirra leiða sem valin hefur verið til að mæta ofangreindu markmiði í leikskólum á Seltjarnarnesi er framkvæmd markvissrar skimunar á þroska 4 - 5 ára barna. Skimunin er á ábyrgð Skólaskrifstofu Seltjarnarness og unnin í fullri samvinnu við báða leikskóla bæjarins.

Markmið
Skimun þessari er ætlað að greina frávik í þroska svo leikskólinn geti sem best komið til móts við þarfir hvers barns. Auk þess gefa niðurstöður leikskólanum góðar vísbendingar um starfið og áherslur almennt.

Ætlunin er einnig að vinnubrögð þessi leiði til þess að grunnskólinn geti betur og fyrr mætt þeim börnum sem eru í áhættu hvað varðar námserfiðleika sem og þeim börnum sem hafa yfirburði í þroska.

Matstæki
Íslenski þroskalistinn sem gefinn er út á vegum Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála verður nýttur við skimun. Höfundar hans eru sálfræðingarnir Sigurður Grétarsson og Einar Guðmundsson. Íslenski þroskalistinn er tæki til að mæla þroska 3ja til 6 ára barna á mál- og hreyfisviði. Móðir svarar 208 staðhæfingum um þroska barnsins og niðurstöður byggja á þeim svörum. Listinn er íslenskur og staðlaður fyrir íslenskar aðstæður. Fundin er ein þroskatala (DQ) auk mælitölu, annars vegar fyrir hreyfisvið og hins vegar fyrir málsvið. Hreyfisvið nær yfir fínhreyfingar, grófhreyfingar og sjálfsbjörg. Málsvið er hlustun, tal og nám. Listann má nýta til að meta þroska einstaka barns sem og til að meta þroska barna í heilum árgangi.

Framkvæmd
Foreldrar fá listann afhentan í leikskólanum og eru beðnir um að skila honum aftur til deildarstjóra nokkrum dögum seinna. Eftir það vinnur þroskaþjálfi úr niðurstöðum og sálfræðingur verður til aðstoðar við túlkun á þeim. Öll gögn eru trúnaðargögn og varðveitt og meðhöndluð sem slík á Skólaskrifstofu Seltjarnarness.

HLJÓM
Jafnfram hefur verið ákveðið að skima skólahópinn með HLJÓM en HLJÓM er athugun á hljóðkerfis- og málvitund barna og byggir á niðurstöðum langtímarannsókna á tengslum hljóð- og málvitundar við lestrarfærni barna. Ingibjörg Símonardóttir og Jóhanna Einarsdóttir talmeinafræðingar hafa unnið að þessum athugunum frá 1996. Athugunin fer fram í leikskólanum og tekur um 20 mínútur. Með þessari viðbót eru enn meiri líkur á að greina börn sem hugsanlega eru í áhættu hvað varðar lestrarörðugleika og mæta þeim með viðeigandi aðgerðum.

Ef um frávik er að ræða verður haft samband við foreldra, niðurstöður ræddar og viðeigandi ráðstafanir gerðar.

Ingibjörg Jónsdóttir, þroskaþjálfi